AIC – ÍSLAND / ICELAND
Isavia ANS ehf., Reykjavíkurflugvelli, 102 Reykjavík /
Isavia ANS, Reykjavik Airport, IS-102 Reykjavik, Iceland
Sími / Telephone: + 354 424 4000
ais@isavia.is
http://www.isavia.is/ 

 
AIC B 003 / 2018
Effective from  25 MAY 2018
Published on 25 MAY 2018
 
 
Vitund flugmanna um eldsneyti og eldsneytiseyðslu /
Pilot's awareness on fuel and fuel consumption
 

Efnisleg ábyrgð:  Samgöngustofa

1 Inngangur

Að gefnu tilefni vill Samgöngustofa benda flugmönnum á mikilvægi þess að vita um orsakir flugatvika og flugslysa sem rekja má til eldsneytisskorts.

Á hverju ári gerist það á Íslandi að loftför verða eldsneytislaus á flugi. Orsök þess er í flestum tilvikum að finna hjá flugmanninum.

Því miður er reynslan sú að ekki er alltaf hægt að nauðlenda án þess að slys hljótist af. Það er því mikilvægt að flugmenn hafi eftirfarandi í huga:

2 Fimm aðferðir til að minnka hættu á flugatvikum/slysum sem rekja má til eldsneytisskorts:

2.1 Að vita hversu mikið eldsneyti er í tönkum loftfarsins

Það er aldrei um of brýnt fyrir flugmönnum að líta sjálfir ofan í eldsneytisgeymana fyrir flug, mæla eldsneytismagnið með ælistiku og skrá það sérstaklega niður. Gæta þarf að því að hafa loftfarið á jafnsléttu þegar eldsneyti er mælt og muna að draga frá það eldsneytismagn sem er ónýtanlegt.
Þannig veistu fyrir víst hversu mikið eldsneyti er nýtanlegt í tönkum loftfarsins.

Gott er að bera saman það magn sem þú hefur mælt og eldsneytismæla loftfarsins. Ef eldsneytisgeymir loftfarsins er þannig gerður eða staðsettur að ekki er hægt að líta ofan í hann,þá má í flestum tilvikum lesa af innbyggðum kvarða í loftfarinu sem sýnir eldsneytismagn í geymum.

Næsta skref er að athuga flughandbók loftfarsins. Þar eru töflur um eldsneytiseyðslu og þær forsendur og upplýsingar sem þarf til að reikna út flugþol.

Hugsaðu síðan um eldsneyti í klukkustundum og mínútum (flugþol) og vertu þess fullviss að þú sért að starfrækja loftfarið í samræmi við þær forsendur sem þú notaðir við útreikninga á flugþoli loftfarsins.

2.2 Að þekkja eldsneytiskerfi loftfarsins

Flugmenn verða að þekkja eldsneytiskerfi loftfarsins vel og vera vandvirkir við þá starfrækslu sem snýr að kerfinu.

2.3 Að vita hvað er í tönkum loftfarsins

Ekki má gleyma í fyrirflugsskoðun að safna eldsneyti úr hverju afrennslisopi og athuga hvort eldsneytið sé tært og af réttri tegund. Einnig ættu flugmenn að gera bráðstafanir til að fyrirbyggja að grugg, mengun og önnur óhreinindi komist í eldsneyti loftfarsins. Sem dæmi þá er vatnsmengun í eldsneyti yfirleitt til komin vegna slitinna eða gallaðra loka á eldsneytisgeymum.

2.4 Að fylgjast með stöðu eldsneytis

Að fylgjast með stöðu eldsneytis á mælum loftfarsins á a.m.k. klukkutíma fresti.

Þrátt fyrir að þú hafir undirbúið flug þitt vel og gert flugáætlun þá geta hlutir alltaf breyst í miðju flugi. Veður og vindar geta breyst þannig að við gætum nauðsynlega þurft að lengja leið okkar og/eða flugtíma. Ef þú veist hversu margar mínútur af eldsneyti þú hefur og hversu langan tíma það tekur að komast á áfangastað eða stað til að taka eldsneyti, þá er auðvelt fyrir þig að vita hvort þú þurfir á viðbótareldsneyti þínu að halda.

Mikilvægt er að fylgjast með stöðu eldsneytismæla með reglulegu millibili og skipta á milli tanka (ef það á við).

Samgöngustofa mælir með að flugmenn athugi stöðu eldsneytis á a.m.k. klukkutíma fresti. Með því að fylgjast með því hvort samræmi er milli stöðu eldsneytismæla og þess flugþols sem þú gafst þér áður en þú lagðir af stað, þá sérðu hvort flugþol þitt stenst eða ekki. Ef samræmi er þarna á milli má einnig nýta sér eldsneytisrennslismæli (fuel flow indicator) til að áætla hversu mikið flugþolið er miðað við starfrækslu loftfarsins á þeim tíma.

2.5 Að lenda alltaf með nægilegt viðbótareldsneyti:

Samgöngustofa mælir með því að flugmenn hafi með sér umframeldsneytismagn sem nægir til 30-45 mínútna flugs á venjulegum farflugshraða og rétt stilltri blöndu.

Ef þú hefur grun um að flugþolið sem þú reiknaðir út dugi ekki, ekki hika við það að láta flugstjórn eða annan viðbúnaðarþjónustuaðila vita.

3 Niðurstaða

Lestu vel og vandlega um eldsneytiseyðslu og -notkun í handbók loftfarsins. Athugaðu vandlega með kvarða eða mælistiku, eldsneytismagn í geymum loftfars fyrir flug, skráðu magnið niður og gættu að því að eldsneytisgeymar séu vel lokaðir.

Kannaðu fyrir flug hvort eldsneytið í loftfarinu sé tært og rétt. 

Leggðu alltaf af stað með fulla geyma, ef önnur hleðsla leyfir það.

Fylgstu með eyðslunni á flugi. Fylgstu með eyðslunni eftir flug, með því að fylla geymana strax. Með því kemurðu einnig í veg fyrir rakamyndun innan í geymum.

Fljúgðu sömu flugvél sem mest, svo þú kynnist henni sem best.
 

 


 

Upplýsingabréf fellt út gildi:

B 004 / 2002

 


 


Efni eftirfarandi NOTAM skeyta birt í þessu upplýsingabréfi:

Ekkert

 


 


 


ENDIR